Læknisfræði: Ísland - Bandaríkin

Læknisfræði: Ísland - Bandaríkin

Hefur þú áhuga á mannslíkamanum og vilt læra allt um hann? Hefur þú mikla samkennd og vilja til að hjálpa öðrum? Þá vilt þú ef til vill verða læknir. En hvar getur þú menntað þig sem læknir? Það eru margir möguleikar, en þessi grein mun reyna útskýra hvað þarf til þess að verða læknir á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Ísland

Fyrst þarftu að klára menntaskóla og taka svo inntökupróf sem haldið er einu sinni á ári, í júní. Fyrir inntökuprófið þarftu að undirbúa þig vel því aðeins 48 nemendur eru teknir inn í læknisfræðideildina að því loknu og sker árangur þinn í prófinu um hvort þú komist inn eða ekki. Ef þú kemst inn þá tekur við 3 ára B.S nám sem veitir samt sem áður enginn sérstök starfsréttindi. Að loknu B.S námi taka við önnur 3 ár til að öðlast embættispróf, cand. Med. próf. Í framhaldinu er tekið eitt ár í starfsnám sem kallast kandidatsár og að því loknu færðu almennt lækningaleyfi hér á Íslandi.

Bandaríkin

Menntun lækna í Bandaríkjunum er aðeins öðruvísi en hér heima. Fyrst þarf að huga að grunnnámi (B.S gráðu) en til þess að klára grunnnám í háskóla í Bandaríkjunum þarf venjulega að taka 4 ár. Árin eru skipt niður í ákveðin nöfn en þau eru eftirfarandi: freshman (1. ár), sophomore (2. ár), junior (3. ár) og loks senior (4. ár). Íslendingar hafa stundum fengið að komast inn á annað árið. Best er að finna skóla sem er með svokallað „pre-medicine“ nám, eins og Hawaii Pacific University eða skóla sem á í samstarfi við einhvern læknisfræðiskóla en allir skólar sem hafa annaðhvort líffræði- eða lífefnafræðinám gæti dugað. Næsta skref eftir að þú hefur útskrifast með B.S gráðu þarftu að finna þér læknisfræðiskóla (Medical School) til að halda áfram að takmarkinu. Til þess að komast inn í viðeigandi skóla þarftu að þreyta inntökupróf sem kallast „Medical College Admissions Test“ eða MCAT. Þegar þú hefur verið samþykkt/ur inn í læknisfræðiskóla þá taka við 4 ár af framhaldsnámi. Eftir það tekur við starfsnám sem getur verið allt frá þremur til sjö ár að ljúka (fer eftir sérsviði lækninga).

Það er því margt að huga að þegar kemur að því að stunda læknisfræðinám hvort það er hér heima á klakanum eða í landi tækifæranna, Bandaríkjunum.

Hafðu samband við sérfræðing KILROY
Hafa samband
Hafa samband